Átta unglingar í Flórída í Bandaríkjunum voru handteknir fyrir hrottafengna líkamsárás í heimahúsi sem átti sér stað 30. mars sl. Barsmíðarnar voru teknar upp á myndband sem var svo sett á veraldarvefinn. Þetta kemur fram á fréttavef Fox News.
Fórnarlambið var 16 ára stúlka, Victoria Lindsay, og hlaut hún alvarlega áverka í kjölfar barsmíðanna. Árásarmennirnir voru 8 talsins, 6 stúlkur og 2 strákar á aldrinum 14 til 18 ára. Talið er að stúlkan hafi verið fengin í heimahúsið til þess eins að hægt væri að mynda barsmíðarnar. Myndbandið var sett inn á My Space síður, YouTube og víðar.
Að sögn foreldra stúlkunnar var hún nær óþekkjanleg þegar þau sáu hana á sjúkrahúsinu. Faðir hennar, Patrick Lindsay, segist vera mjög ósáttur við netið. „Þessar vefsíður eru að búa til vettvang fyrir glæpamenn að mynda barsmíðar og slagsmál. Ef þeir búa til hrottafengnasta myndbandið eru þeir einhvers konar hetjur í augum margra,“ sagði hann.