Ofbeldisalda hefur gengið yfir Haítí undanfarna daga vegna þess hve matvæli hafa hækkað mikið. Friðargæsluliðar Sameinuðu þjóðanna beittu táragasi og skutu gúmmíkúlum þegar reiðir borgarbúar reyndu að ryðjast inn í stjórnarbyggingar. Að minnsta kosti fimm manns hafa látið lífið í landinu.
„Við erum hungruð," hrópaði fólkið við forsetahöllina.
Almenningur á Haítí notar orðatiltækið grangou klowox, eða „að borða klór," til að lýsa daglegum hungurverkjum því sársaukadrættir koma á andlit fólks vegna hungurtilfinningarinnar í maganum.
Kornverð hefur tvöfaldast á síðustu vikum en korn er uppistaðan í fæðu margra þjóða í Mið- og Suður-Ameríku. Mótmælaaðgerðir vegna verðhækkana hafa m.a. verið í El Salvador þar sem konur fóru út á götur og börðu potta og pönnur.