Breska rannsóknarlögreglan Scotland Yard hefur ákveðið að taka til athugunar staðhæfingar þess efnis að Paul Burrell, fyrrum bryti Díönu prinsessu, hafi framið meinsæri er hann bar vitni við réttarhöldin vegna dauða hennar fyrr á þessu ári. Þetta kemur fram á fréttavef BBC.
„Í ljósi kvartana sem okkur hafa borist ber lögreglunni skylda til að athuga hvort rétt sé að höfða mál gegn Paul Burrell vegna meinsæris,” segir talsmaður lögreglunnar. „Í athugun okkar munum við að sjálfsögðu taka tillit til þeirrar ákvörðunar dómarans að vísa málinu ekki til okkar.”
Scott Baker, dómari í málinu, lýsti því yfir í samantekt sinni vegna málsins að augljóst væri að Burrell hefði sagt ósatt í vitnisburði sínum. Hann ákvað hins vegar að vísa málinu ekki til lögreglu þar sem hann segist telja tímabært að binda enda á opinber málaferli vegna dauða Díönu og leyfa henni að hvíla í friði. Í myndbandi sem dagblaðið The Sunhefur undir höndum, staðfestir Burrell að hann hafi ekki ekki sagt allan sannleikann við réttarhöldin og segist hafa verið “mjög óþekkur strákur”.
Eftir að greint var frá tilvist myndbandsins neitaði hann beiðni dómarans um að snúa aftur til Bretlands frá bandaríkjunum, þar sem hann býr, til að skýra mál sitt.
Burrell, sem hefur skrifað tvær bækur um prinsessuna, hefur áður verið ákærður fyrir að stela hlutum úr dánarbúi hennar. Það mál gegn honum var hins vegar látið niður falla eftir að Elísabet Englandsdrottning staðfesti þá staðhæfingu hans að hún hafi vitað að hann hefði umrædda hluti í fórum sínum.