Stærsta flugfélag Bandaríkjanna, American Airlines, hefur orðið að aflýsa yfir eitt þúsund áætlunarferðum vegna kröfu flugmálayfirvalda um að leiðslur í hjólabúnaði allra MD-80 þotna félagsins verði skoðaðar.
Hefur þetta raskað ferðum farþega í fjölmörgum borgum í Bandaríkjunum í gær og dag. Segja talsmenn félagsins að fleiri ferðum kunni að verða aflýst næstu daga.
Bandaríska loftferðaeftirlitið (FAA) taldi að American hefði ef til vill ekki fylgt fyllilega eftir tilmælum eftirlitsins um skoðun á leiðslunum. Kom þetta fram er FAA lét athuga viðhaldsskýrslur allra bandarískra flugfélaga í kjölfar þess að Southwest var sektað um rúmlega tíu milljónir dollara fyrir að láta tugi véla sinna halda áfram í áætlunarflugi án þess að fara í viðeigandi skoðun.
Yfirmaður FAA sagði í síðustu viku að athugunin á viðhaldsskýrslunum hefði leitt í ljós að í 99% tilvika hefði tilmælum eftirlitsins verið fylgt í hvívetna.