Þess var minnst á þýska þinginu í dag að 75 ár eru liðin síðan lýðræði var afnumið í landinu og Adolf Hitler tók völd. Vottaði þingheimur virðingu sína þeim þingmönnum sem á sínum tíma reyndu að koma í veg fyrir að nasistum tækist að kveða niður pólitíska andstöðu.
„Við lútum höfði vegna fórnarlamba einræðisstjórnar þjóðernissósíalista,“ sagði Norbert Lammert, forseti þingsins.
Eftir að Hitler var útnefndur kanslari 1933 samþykkti þingið að veita stjórn hans tilskipunarvald, þannig að stjórnin þyrfti ekki að leita samþykkis þingsins eða forsetans fyrir ákvörðunum. Þar með hafði Hitler í raun verið veitt einræðisvald.
444 þingmenn samþykktu veitingu tilskipunarvaldsins. Þingmenn sósíaldemókrata og kommúnista höfðu þegar verið útlokaðir, og einu þingmennirnir sem voru mótfallnir tilskipunarvaldsveitingunni voru 94 meðlimir jafnaðarmannaflokks Otto Wels.
„Þeir neituðu að samþykkja afnám lýðræðisins með lögum,“ sagði Lammert. „Þar með urðu þessir menn - sem fæstir vita nú hvað hétu - að lýðræðis- og þingræðishetjum.“
„Einkunnarorð dagsins í dag ættu að vera: Aldrei aftur,“ sagði Hans-Jochen Vogel, leiðtogi Jafnaðarmannaflokksins. „Við verðum að horfast í augu við staðreyndir. Á sínum tíma fögnuðu sífellt fleiri Þjóðverjar Hitler sem bjargvætti.“