Kínversk yfirvöld hafa hafnað beiðni Louise Arbour, mannréttindafulltrúa Sameinuðu þjóðanna um að hún fái að heimsækja Tíbet. Talsmaður hennar staðfestir þetta og segir hana hafa farið fram á að fá að fara þangað til að kanna ástand mála í kjölfar átakanna sem þar brutust út í síðustu viku. Þetta kemur fram á fréttavef Jyllands-Posten.
„Kínversk yfirvöld svöruðu því til að það hentaði ekki sem stendur,. Þau tóku hins vegar fram að hún væri velkomin síðar, henti það báðum aðilum,” segir talsmaðurinn Rupert Colville. Þá segir hann Arbour hafa lagt beiðni sína fram þann 27. mars en að svar hafi fyrst borist í þessari viku.
Yfirvöld í Kína segja nítján manns hafa látið lífið í átökum kínverskra öryggissveita og mótmælenda í lok mars en útlagastjórn Tíbeta segir allt að 140 manns hafa látið lífið.
Arbour mun láta af starfi mannréttindafulltrúa Sþ í júní.