Þingkosningar verða haldnar á Ítalíu um helgina og benda skoðanakannanir til þess að Silvio Berlusconi, fyrrverandi forsætisráðherra Ítalíu og leiðtogi kosningabandalags mið- og hægri flokka muni bera sigur úr býtum.
Í nýjustu skoðanakönnun mælist Berlusconi með talsvert forskot á keppinaut sinn Walter Veltroni, leiðtoga kosningabandlags mið- og vinstriflokka. Berlusconi hélt sinn síðasta kosningafund í Róm í kvöld og hvatti þúsundir stuðningsmanna til þess að breyta hug óákveðinna kjósenda. Veltroni heldur sinn síðasta kosningafund í Róm á morgun.
Boðað var til kosninga á Ítalíu fyrr en ætlað var eftir að fyrrum leiðtogi mið- og vinstriflokka, Romano Prodi, sagði af sér í janúar. Ríkisstjórn Prodis féll eftir 20 mánaða setu.