George W. Bush Bandaríkjaforseti hefur ákveðið að fara að ráðum æðsta yfirmanns bandaríska heraflans í Írak og kalla ekki fleiri bandaríska hermenn heim frá landinu í júlí eins og til hafði staðið. Ákvörðun hans þýðir að hugsanlega verði 140.000 bandarískir hermenn enn í Írak er nýr forseti Bandaríkjanna tekur við embætti í upphafi næsta árs.
Bush mun, samkvæmt upplýsingum úr varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna, kynna þessa ákvörðun sína formlega í dag. Þá mun hann gera grein fyrir því að þeir hermenn sem sendir verði til Íraks á næstu mánuðum muni dvelja þar í tólf mánuði í stað fimmtán mánaða. Þeir hermenn sem þegar eru í landinu verða hins vegar ekki kallaðir heim fyrr en fimmtán mánaða herþjónustu þeirra þar er lokið.
Fimm ár eru í dag frá því Bandaríkjamenn og Bretar náðu Bagdad, höfuðborg Íraks á sitt vald.