Jimmy Carter, fyrrum forseti Bandaríkjanna, er sagður ætla að hitta Khaled Meshal, einn æðsta leiðtoga Hamas-samtakanna í heimsókn sinni til Damaskus í Sýrlandi síðar í þessum mánuði. Talsmaður Carters hefur staðfest að hann hyggist heimsækja Sýrland en vill ekki tjá sig um hugsanlegan fund hans með Meshal Þetta kemur fram áfréttavef Ha’aretz.
John Bolton, fyrrum sendiherra Bandaríkjanna hjá Sameinuðu þjóðunum, hefur gagnrýnt fyrirhugaða ferð Carters harðlega. Segir hann slíka hugmynd dæmigerða fyrir Carter og að það sé einstaklega óráðlegt að fara til Sýrlands til að hitta fulltrúa Hamas á þessum tímapunkti.
Sean McCormack, talsmaður bandaríska utanríkisráðuneytisins, tekur í sama streng og segir bandarísk yfirvöld alls ekki fylgjandi fundi með Meshal. Carter sætti harðri gagnrýni eftir að hann gaf út bókina „Palestine Peace Not Apartheid" árið 2006 en þar færir hann m.a. rök fyrir því að herseta og landnám Ísraela á palestínsku landi sé aðalhindrun þess að friður geti komist á í Miðausturlöndum.