Yfirvöld í Kína hafa greint frá því að upp hafi komist um áætlanir herskárra aðskilnaðarsinna um að ræna þátttakendum á Ólympíuleikunum í Beijing í ágúst. Wu Heping, talsmaður öryggismálaráðuneytis Kína, segir að um sé að ræða glæpasamtök í Xinjiang í vesturhluta Kína. Þetta kemur fram á fréttavef Sky.
„Undir lok síðasta árs gaf hópur hryðjuverkamanna frá Austur-Turkestan, sem starfræktur er erlendis, út tilskipun um að liðsmenn hans héldu til landsins til að búa sig undir að gera hryðjuverkaárásir á Ólympíuleikunum í Beijing," segir Wu. „Þeir voru einnig beðnir um að safna upplýsingum um hótel sem munu hýsa erlenda gesti, opinberar byggingar og herstöðvar."
Wu segir 35 hafa veri handtekna vegna málsins á tímabilinu 26. mars til 6. apríl og að talið sé að mennirnir hafi lagt á ráðin um að ræna íþróttamönnum, erlendum blaðamönnum og öðrum gestum leikanna. „Þessir ofbeldisfullu hryðjuverkamenn vonuðust til að geta spillt Ólympíuleikunum í Beijing með því að skapa alþjóðlegt uppnám,” segir hann.
Herskáir múslímar af Uighur ættbálknum hafa á undanförnum árum barist fyrir stofnun sjálfstæðs ríkis Austur-Turkestan í Xinjiang.