British Airways hefur ákveðið að fresta því að færa flug á lengri flugleiðum í flugstöðvarbyggingu 5 á Heathrow flugvelli í Lundúnum þar til í byrjun júní vegna allra þeirra vandamála sem upp hafa komið eftir að nýja byggingin var tekin í notkun.
Þetta þýðir að flutningurinn frestast um mánuð en stefnt var að því að allt flug BA á lengri flugleiðum yrði um bygginguna frá og með 30. apríl en nú fer þetta flug um byggingu 4
Erfiðlega hefur gengið að koma flugi sem fer um byggingu 5 í eðlilegt horf þar sem tölvukerfi hafa ekki virkað sem skyldi. Hefur flugfélagið þurft að fresta hundruðum fluga og farangur hefur farið á flakk vegna bilana í tölvukerfi frá því að flugstöðvarbyggingin var formlega tekin í notkun þann 27. mars sl. Til að mynda týndust 15 þúsund töskur vegna erfiðleikanna en samkvæmt upplýsingum frá flugvellinum eru þær flestar komnar í leitirnar.