Eigandi frönsku snekkjunnar, sem var rænt af sjóræningjum í síðustu viku, borgaði 2 milljónir dala, eða andvirði 146 milljóna króna, í lausnargjald fyrir áhöfn snekkjunnar, samkvæmt heimildum AFP fréttastofunnar. Í áhöfn snekkjunnar voru 30 einstaklingar, en öll áhöfnin var látin laus í dag. Snekkjan, Le Ponant, var á leið af Indlandshafi til Miðjarðarhafs um Súez-skurðinn þegar sjóræningjarnir tóku hana á Adenflóa.
Frönsk lögregla sá um samningaviðræður á milli eiganda skipsins og sjóræningjanna, en eitthvað af lausnargjaldinu var endurheimt þegar franski herinn handtók sex menn úr hópi sjóræningjanna. Sjóræningjarnir eru frá Sómalíu.