Öryggissveitir skutu að minnsta kosti þrettán uppreisnarmenn til bana í átökum sem brutust út í höfuðborg Íraks, Bagdad, í nótt, samkvæmt upplýsingum frá Bandaríkjaher. Heimildum ber þó ekki saman því vitni segja að meðal hinna látnu hafi verið tvö börn með foreldrum sínum.
Átökin brutust út í sjíta hverfinu Sadr City en liðsmenn sjítaklerksins Moqtada al-Sadr ráða lögum og ráðum í hverfinu. Samkvæmt upplýsingum frá hernum eru þeir sem féllu allir uppreisnarmenn.
Hins vegar sýndi íbúi í hverfinu ljósmyndara AFP fréttastofunnar hús sem hafði orðið fyrir skotárás hermanna. Að sögn nágranna íbúa hússins létust tvö ung börn og foreldrar þeirra í árásinni. Fimm aðrir í fjölskyldunni særðust.
Alls hafa um átta hundruð látist frá því átökin hófust í lok mars er öryggissveitir al-Maliki forsætisráðherra hófu árásir á sveitir sjíta í Basra. Fylgjendur al-Sadr hafa ásakað yfirvöld um að reyna að veikja hreyfinguna fyrir sveitarstjórnarkosningar í haust.
Átökin breiddust út og hafa staðið yfir í Bagdad, Basra og öðrum borgum í suðurhluta landsins.