Barack Obama, sem sækist eftir útnefningu sem forsetaefni bandaríska Demókrataflokksins segist harma ummæli sín um verkalýðsfólk, sem hann sagði vera biturt, ganga um með byssur og vera fast í klóm trúar. Þetta kemur fram á fréttavef BBC.
Obama segist nú hafa átt að hugsa orð sín betur, en umdeildu ummælin lét hann falla á fjáröflunarsamkomu í San Francisco síðastliðinn sunnudag. Obama uppskar mikla gagnrýni frá keppinaut sínum, Hillary Clinton, og John McCain, forsetaefni Repúblikanaflokksins.
Obama var sakaður um að tala niður til kjósenda í smábæjum í Bandaríkjunum, eftir að ummæli hans á samkomunni voru sýnd á myndbandi. Þar sagðist Obama skilja reiði íbúa í samfélögum sem eiga við fjárhagserfiðleika að stríða. Obama sagði að í mörgum smábæjum í Pennsylvaníu og Mið-vesturríkjunum hafi íbúar misst atvinnu sínu fyrir 25 árum síðan og að ekkert hafi komið í stað þeirra. „Það er því ekki skrítið að íbúar bæjanna upplifi beiskju, þeir halda í byssur eða trú, og hafa óbeit á þeim sem eru ekki eins og þeir, eru á móti innflytjendum, en það er leið þeirra til þess að tjá vonbrigði sín," sagði Obama.
Hillary Clinton sagði að kjósendur í Pennsylvaníu þurfi ekki á forseta að halda sem líti niður á þá. Prófkjör demókrata verður haldið í Pennsylvaníu þann 22.apríl.