Aðgerða er þörf strax segir yfirmaður Alþjóðabankans

Frá Port au Prince, höfuðborg Haíti
Frá Port au Prince, höfuðborg Haíti Retuers

Yf­ir­maður Alþjóðabank­ans, Robert Zoellick, hvatti í kvöld stjórn­völd heims­ins til aðgerða strax vegna hækk­un­ar á mat­væla­verði, svo sem á korni og hrís­grjón­um. Hátt mat­væla­verð hafi kostað hung­urs­neyð og of­beldi í nokkr­um lönd­um að und­an­förnu. Zoellick sagði að alþjóðasam­fé­lagið verði að setja fé á þá staði þar sem hungrið sverf­ur að. Það sé skylda okk­ar að aðstoða þá sem svelta í heim­in­um.

Að sögn Zoellick er nauðsyn­legt að stjórn­völd komi að því að út­vega mat­vælaaðstoð Sam­einuðu þjóðanna 500 millj­ón­ir Banda­ríkja­dala en það eru þeir fjár­mun­ir sem nauðsyn­lega vant­ar upp á í neyðaraðstoð á næstu vik­um. Seg­ir hann nauðsyn­legt að rík­is­stjórn­ir staðfesti stuðning sinn eins fljótt og auðið er. Verðlag á mat­væl­um hafi hækkað að und­an­förnu og ekki út­lit fyr­ir að það geri annað en að hækka á næst­unni.  

Ástandið er einna verst á Haíti og í gær samþykkti þing lands­ins að reka for­sæt­is­ráðherra lands­ins frá völd­um. Í dag var starfsmaður Sam­einuðu þjóðanna myrt­ur í höfuðborg Haíti í átök­um sem brut­ust út vegna þess hve hátt verð á mat­væl­um er orðið í land­inu. Alþjóðabank­inn hef­ur ákveðið að setja 10 millj­ón­ir dala í mat­vælaaðstoð á Haíti á næst­unni. 

Zoellick sagði í dag að því væri oft þannig farið er fjár­málaráðherr­ar alþjóðasam­fé­lags­ins kæmu sam­an að meira væri um orð held­ur en aðgerðir. Hann sagðist hins veg­ar skynja að breyt­ing væri að verða þar á. Enda þurfi þró­un­ar­lönd­in á aðstoð að halda núna.

Starfsmaður SÞ var myrtur á Haíti í dag
Starfsmaður SÞ var myrt­ur á Haíti í dag AP
mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert