Tíbetskir munkar handteknir

Tíbetskir munkar.
Tíbetskir munkar. AP

Kínversk lögregla hefur handtekið níu tíbetska munka, og sakað þá um að hafa skipulagt  sprengjuárás.  Frá þessu greinir kínverska fréttastofan Xinhua.  Kínversk yfirvöld segja að sprengju hafi verið komið fyrir í stjórnarbyggingu í austur Tíbet þann 23. mars.  Fram kemur á fréttavef BBC, að kínversk yfirvöld hafi ekki greint frá því hvers vegna fréttir af meintri sprengju komu ekki fram fyrr.  Að sögn Xinhua hafa munkarnir játað að hafa komið sprengjunni fyrir í Gyanbe. 

Stuðningsmenn málstaðar Tíbeta um allan heim hafa vakið athygli á málefnum Tíbeta með mótmælum og m.a með því að hvetja til þess að Ólympíuleikarnir í Peking, sem haldnir verða í ágúst, verði sniðgengnir.

Mótmæli gegn kínverskum stjórnvöldum hófust í Lhasa, höfuðborg Tíbets, þann 10. mars.  Kínversk stjórnvöld sendu herafla til Lhasa og fleiri staða í Tíbet, og gáfu mótmælendum úrslitakosti um að gefa sig fram, eða sæta refsinga af hálfu yfirvalda. 

Yfirvöld í Peking halda því fram að Dalai Lama, andlegur leiðtogi Tíbeta, hafi átt þátt í að skipuleggja mótmælin, og saka hann um að reyna að spilla fyrir Ólympíuleikunum.
 
Dalai Lama, hefur vísað öllum slíkum ásökunum á bug, og segir að hann sækist ekki eftir aðskilnaði Tíbets frá Kína, heldur að Tíbetar fái aukna sjálfstjórn.  Hann hefur einnig lýst því yfir að hann sé á móti því að Ólympíuleikarnir verði sniðgengnir.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert