Japanski hvalveiðiflotinn er á leið í höfn eftir fimm mánaða úthald í Suðurhöfum. Aðeins náðist að veiða rúmlega helming af útgefnum kvóta eða um 551 hrefnu og enga langreyði. Segja embættismenn að ástæðuna megi rekja til aðgerða náttúruverndarsinna.
Móðurskip flotans, Nisshin Maru, mun koma til hafnar í Tókýó á þriðjudag en hin skipin fimm munu fara til ýmissa hafna á vesturhluta Japans.
Til stendur að lögregla og starfsmenn japönsku strandgæslunnar rannsaki skipin vegna gruns um að framin hafi verið lögbrot þegar náttúruverndarsinnar hindruðu veiðarnar. Eru stjórnvöld í öðrum löndum hvött til að veita aðstoð gegnum alþjóðalögregluna Interpool.
Það voru einkum samtökin Sea Shepherd, sem fóru mikinn á hvalamiðunum. Þau sögðust m.a. hafa varpað fýlusprengjum á japönsku skipin, pokum sem innihéldu þránað smjör. En Japanir segja að sprengjurnar hafi innihaldið hættulega sýru.