Lögregla í Dölunum í Svíþjóð hélt í morgun blaðamannafund vegna morðsins á Engla Juncosa-Höglund, 10 ára gamalli stúlku, sem fannst látin í gær eftir að hennar hafði verið verið leitað í viku. 42 ára gamall karlmaður, sem handtekinn var fyrir nokkrum dögum, játaði í gær að hafa myrt stúlkuna og vísaði lögreglu á staðinn þar sem hún var grafin. Maðurinn játaði einnig að hafa myrt aðra konu árið 2000.
Maðurinn, sem heitir Anders Eklund og er 42 ára gamall flutningabílstjóri, var handtekinn vegna þess að bíll hans sást á myndum, sem teknar voru af litlu stúlkunni skömmu áður en hún hvarf á laugardag fyrir viku. Eklund hafði áður verið dæmdur fyrir kynferðisbrot.
Hann neitaði lengi vel sök en við yfirheyrslur í gær játaði hann fyrst, að hafa orðið Pernillu Hellgren að bana árið 2000. Síðan játaði hann að hafa myrt litlu stúlkuna skömmu eftir að hún hvarf og grafið lík hennar skammt frá heimili sínu í Gästrikland. Það er um 45 kílómetra frá Stjärnsund þar sem litla stúlkan bjó. Maðurinn vísaði lögreglu í kjölfarið á líkið.
Lögreglan segir, að í gærkvöldi hafi komið í ljós að DNA sýni, sem tekin voru í tengslum við rannsóknina á morðinu árið 2000, svari til sýna úr Eklund.
Svo virðist sem lögreglan hafi í nóvember sl. fengið nafnlausa ábendingu um, að Eklund kynni að hafa myrt Hellgren en þeirri ábendingu var ekki fylgt eftir. Mun nefnd, sem rannsakar málefni lögreglu, nú fara yfir ástæður þessa.