Á Írlandi, Spáni og Bretlandi, er fasteignaverð sem hækkað hefur gríðarlega undanfarinn áratug á hraðri niðurleið.
Markaðsgreinar spá því að í sumum löndum, eins og til dæmis Írlandi, muni verða meiri samdráttur en í Bandaríkjunum, og útiloka ekki að samdrátturinn breytist í allsherjarhrun.
Frá þessu greinir The New York Times. Fréttamaður blaðsins í Dublin tekur dæmi af 31 árs konu sem keypti íbúð í úthverfi borgarinnar í maí 2006 fyrir sem svarar rúmum 42 milljónum króna, en í dag er verðmat íbúðarinnar um 35 milljónir króna, eða um sjö milljónum lægra.
„Mér rennur kalt vatn milli skinns og hörunds þegar ég hugsa um þetta,“ hefur blaðið eftir konunni, Emmu Linnane. „En ég ætla að horfast í augu við veruleikann þegar ég neyðist til að selja.“
Þessi veruleiki breiðist hratt út, segir blaðamaður NYT.
„Vandræðin á húsnæðismarkaðinum í Bandaríkjunum eru tekin að berast til Evrópu,“ segir Michael Ball, prófessor í hagfræði við Háskólann í Reading í Bretlandi.
Ball hefur rannsakað húsnæðisverð, og segir erfiðleikana virðast ætla að verða mun meiri en búist hafi verið við.
Í löndum á borð við Írland, þar sem húsnæðisverð hefur jafnvel þanist meira út en í Bandaríkjunum, eru horfurnar sérlega slæmar.
En vandinn er enn víðtækari, því að húsnæðisverð fer ekki lengur hækkandi í Eystrasaltslöndunum, Austur-Evrópu og jafnvel verður vandans vart í Kína og á Indlandi, segir NYT.
Þenslan á fasteignamarkaðinum í Bretlandi „var jafnvel enn meiri en í Bandaríkjunum,“ hefur blaðið eftir Kelvin Davidson, hagfræðingi við Capital Economics í London. „Ef eitthvað er ætti fólk að hafa meiri áhyggjur hér en í Bandaríkjunum.“
„Bretar eltu Bandaríkjamenn til ævintýralandsins, og veittu húsnæðislán til hægri og vinstri í þeirri trú að verðið myndi halda áfram að hækka um ókomna tíð,“ segir Allan Saunderson, ritstjóri Property Finance Europe, sem er fréttabréf fjárfesta.