Uppþot víða um heim, allt frá Haítí til Bangladesh og Egyptalands, vegna snarhækkandi verðs á nauðþurftum hafa beint athygli heimsbyggðarinnar að þeim vaxandi vanda sem verðhækkun á matvælum er orðin.
Fjármálaráðherrar sem komu saman í Washington um síðustu helgi „voru í áfalli, og vissu vart sitt rjúkandi ráð,“ sagði bandaríski hagfræðingurinn Jeffrey Sachs, yfirmaður Jarðar-stofnunarinnar við Columbia-háskóla, við CNN.
„Þetta er aðal fréttin í heiminum núna,“ sagði Sachs um hækkun matvælaverðs.
Robert Zoellick, framkvæmdastjóri Alþjóðabankans, sagði á fundi með ráðherrunum, að á undanförnum tveim mánuðum hefði verð á hrísgrjónum snarhækkað, um allt að 75% að meðaltali í heiminum, og meira á sumum mörkuðum.
Í Bangladesh kosti tveggja kílóa poki af hrísgrjónum nú um það bil helminginn af daglegum tekjum fátækrar fjölskyldu.
Verð á hveiti hefur hækkað um 120% undanfarið ár, sagði Zoellick.
Eitt af því sem vakið hefur deilur í tengslum við hækkun matarverðs er ræktun á korni til framleiðslu á etanóli fyrir bíla.
Jean Ziegler, sérstakur fulltrúi Sameinuðu þjóðanna í matvælamálum, hefur sagt að það sé „glæpur gegn mannkyninu“ að nota matvælauppskeru til að búa til eldsneyti á bíla.
„Maturinn hefur verið settur í bensíntankinn,“ sagði Sachs, og bætti því við að það væri lítið vit í niðurgreiðslum bandarískra stjórnvalda til framleiðslu á etanóli úr korni.
Önnur mikilvæg ástæða fyrir hækkandi matarverði er aukin eftirspurn, einkum í löndum þar sem mannfjölgun er mikil, eins og Kína og Indlandi.