Foreldrar Olivers Chaanhing, fimm ára gamals drengs sem rænt var í Danmörku í gær, hittu son sinn aftur í kvöld en lögregla frelsaði drenginn síðdegis úr höndum mannræningjanna. Drengurinn er sagður við góða heilsu en hann var fluttur á Rigshospitalet í Kaupmannhöfn í kvöld. Þar munu læknar og sálfræðingar rannsaka hann.
Mark Chaanhing, afi drengsins, sagði í viðtali við TV2 í Danmörku í kvöld, að mikil gleði ríkti í fjölskyldunni vegna lykta málsins. „Við stukkum upp úr stólunum og tengdadóttir mín grét af gleði," sagði hann og bætti við að fjölskyldan væri afar þakklát lögreglunni og einnig dönskum almenningi fyrir þann stuðning sem hann hefði sýnt.
Chaanhing talaði við Oliver í síma skömmu eftir að drengurinn var frelsaður. „Hann hringdi frá lögreglustöðinni á Helsingjaeyri og hrópaði glaður: Afi, afi, löggan gaf mér kók."
Lögreglan réðist til inngöngu í hús í Hvidovre á Sjálandi þar sem talið er að drengurinn hafi verið í haldi frá því honum var rænt rúmum sólarhring áður. Lögregla mun hafa fengið ábendingu um hvar drengurinn var en vill lítið ræða um málið að svo stöddu. Tveir Kínverjar voru handteknir í húsinu og þeir veittu ekki mótspyrnu.
Vangaveltur hafa verið um það í Danmörku að svonefnd triade-glæpasamtök hafi staðið á bak við ránið og kröfu um lausnargjald sem fylgdi í kjölfarið. Glæpasamtökin, sem eru kínversk að uppruna, hafa starfað í Danmörku lengi og hafa einnig skotið rótum í Svíþjóð.
Samtökin standa m.a. fyrir ólöglegum fjárhættuspilum, smygli á ólöglegum innflytjendum og fölsum greiðslukorta, frímerkja og aðgöngumiða.
Chaanhingfjölskyldan á nokkur veitingahús í Kaupmannahöfn og nágrenni, og á m.a. hlut í Det Kinesiske Tårn í Tívolí.