Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands, átti fund með George W. Bush, Bandaríkjaforseta, í Hvíta húsinu í Washington í dag og sagði að samband milli landanna tveggja verði áfram traust eftir að nýr forseti tekur við völdum í Bandaríkjunum í byrjun næsta árs.
Brown sagðist einnig myndu vinna með Bandaríkjunum að því að styrkja alþjóðlegt efnahagslíf, koma á stöðugleika í Írak og bregðast við hlýnun jarðar á meðan Bush er enn í embætti.
Báðir leiðtogarnir báru á móti því, að samband ríkjanna hefði trosnað eftir að Tony Blair lét af embætti forsætisráðherra Bretlands sl. sumar.
Brown átti fyrr í dag fundi með þeim John McCain, forsetaefni Repúblikanaflokksins og þeim Hillary Clinton og Barack Obama sem keppa að útnefningu sem forsetaefni Demókrataflokksins.