Lögreglan í Danmörku hefur enn engar vísbendingar um það hvers vegna fimm ára dreng var rænt í Virum, norður af Kaupmannahöfn, síðdegis í gær. Lögregla segir ekkert benda til átaka innan fjölskyldu drengsins en að tilraun hafi verið gerð til þess fyrir tíu árum að ræna dreng, úr sömu fjölskyldu, sem þá var tólf ára. Þetta kemur fram á fréttavef Berlingske Tidende.
Oliver, sem rænt var í gær, tilheyrir dansk-kínverskri fjölskyldu sem á og rekur þrjá kínverska veitingastaði á Kaupmannahafnarsvæðinu m.a. Kínverska turninn í Tívolí. Þrír menn námu Oliver á brott er móðir hans var að sækja hann í skóla um miðjan dag í gær. Óku mennirnir burtu með drenginn í svörtum bíl, sem nú er leitað.
Fyrir tíu árum komst upp um áform fimm manna, sem tengast rekstri kínverskra veitingahúsa í Danmörku, um að ræna bróður drengsins. Munu þeir hafa ætlað að krefjast lausnargjalds fyrir hann.
Þremur vikum síðar var 22 ára dóttur annars kínverks veitingahúsaeiganda rænt á götu í Kaupmannahöfn. Henni var haldið fanginni í þrjá sólarhringa en þegar fjölskylda hennar neitaði að greiða lausnargjald fyrir hana var henni sleppt. Sex menn voru sakfelldir vegna þess máls og dæmdir til langrar fangelsisvistar.