Tsvangirai sakaður um landráð

Morgan Tsvangirai (th)forsetaframbjóðandi stjórnarandstöðuflokksins MDC, og Tendai Biti, framkvæmdastjóri flokksins.
Morgan Tsvangirai (th)forsetaframbjóðandi stjórnarandstöðuflokksins MDC, og Tendai Biti, framkvæmdastjóri flokksins. AP

Patrick Chinamasa, dómsmálaráðherra Zimbabve hefur sakað Morgan Tsvangirai, forsetaframbjóðanda stjórnarandstöðunnar í landinu um landráð og sagt hann vinna að því í samráði við Breta að Þvinga fram stjórnarskipti í landinu. Kosningar fóru fram í Zimbabve í lok mars og hafa niðurstöður í forsetakjöri enn ekki verið gerðar opinberar. Þetta kemur fram á fréttavef BBC. 

Chinamasa staðhæfir í viðtali við ríkisblaðið Herald að Tsvangirai hafi átt viðræður við fulltrúa breskra yfirvalda um hernaðarlega íhlutun láti Robert Mugabe ekki af völdum í Zimbabve.  

Stjórnarandstaðan náði meirihluta á þingi landsins samkvæmt þeim kosningaúrslitum sem birt hafa verið. Þá benda úrslit sem birt voru við kjörstaði til þess að Tsvangirai hafi hlotið fleiri atkvæði en Mugabe, sem setið hefur á forsetastóli í landinu frá árinu 1980.

Yfirvöld segja hins vegar að tölur úr talningum stemmi ekki og neita að birta úrslitin fyrr en að lokinni endurtalningu sem fram á að fara um næstu helgi. Tsvangirai hefur áður verið ákærður fyrir landráð en sýknaður fyrir dómi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert