416 forræðismál í einu

Dómari í Texas þarf nú að úrskurða í deilu um forræði yfir 416 börnum sem fjarlægð voru úr höndum sértrúarsöfnuðar í ríkinu fyrir skömmu, vegna gruns um að 16 ára stúlka hefði verið neydd í hjónaband og misþyrmt kynferðislega.

Börnin 416 komu fyrir rétt í gær, hvert um sig með sinn verjanda, ásamt alls um 200 mæðrum og tugum feðra. Barnaverndaryfirvöld í Texas vilja fá forræðið yfir öllum börnunum.

Saksóknarar og verjendur deildu um hvort leyfa ætti að læknaskýrslur yrðu lagðar fram í málinu, og hvort málið bryti gegn rétti til trúfrelsis.

Dómarinn, Barbara Walther, sagði það alls ekki hlutverk réttarins að úrskurða um trúarsiði nokkurs manns, og ekki léki vafi á trúfrelsi allra. Sagðist hún vilja komast að niðurstöðu um hvort fela ætti börnin aftur í umsjá foreldra þeirra, eða hvort fyrirliggjandi væru nægar vísbendingar um að þau þyrftu að vera áfram í umsjá barnaverndaryfirvalda.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert