Anders Eklund, sem hefur viðurkennt morð á 10 ára stúlku og 31 árs gamalli konu, var í dag úrskurðaður í áframhaldandi gæsluvarðhald vegna málsins. Verjandi Eklunds segir, að skjólstæðingur sinn sé einn hataðasti maður í Svíþjóð um þessar mundir en mál Eklunds hefur vakið mikinn óhug í landinu.
Eklund, sem er 42 ára gamall atvinnubílstjóri, játaði að hafa myrt 10 ára gamla stúlku fyrir hálfum mánuði og vísaði á staðinn þar sem lík hennar var grafið. Hann játaði einnig að hafa myrt konu árið 2000. Verið að rannsaka hvort hann kunni að hafa framið fleiri morð í Svíþjóð og Noregi.
Leif Silbersky, verjandi Eklunds, sagði í dag að gæsluvarðhaldsúrskurðurinn yrði ekki kærður. Hann vildi ekki tjá sig um hvort Eklund væri grunaður um fleiri morð og sagði mikilvægt að lögreglan fengi frið til að rannsaka málið.