Ísraelskir hermenn felldu Hani Al-Kabi, háttsettan liðsmann palestínsku Al-Aqsa samtakanna, í Nablus á Vesturbakkanum í nótt en Kabi var í hópi tólf Palestínumanna sem struku úr palestínsku fangelsi fyrir þremur mánuðum. Þetta kemur fram á fréttavef Ha’aretz.
Vitni segja hermenn hafa umkringt hús, sem hann hafðist við í í Balata flóttamannahverfinu og ráðist til inngöngu er hann neitaði að koma út. Annar maður, sem einnig er sagður liðsmaður herskárra samtaka Palestínumanna, var handtekinn í húsinu. Þá voru tíu menn til viðbótar handteknir í aðgerðum Ísraelshers annars staðar í Nablus í morgun.
Kabi var eftirlýstur af Ísraelum fyrir að skipuleggja hryðjuverkaárásir sem ekki var hrint í framkvæmd en ein þeirra gerði ráð fyrir að matur yrði eitraður á hóteli í Ísrael. Al Aqsa samtökin höfðu þó neitað því að hann hefði átt þátt í þeim áformum.
Ísraelar samþykktu fyrr á þessu ári að öryggissveitir Mahmout Abbas, leiðtoga Palestínumanna, tækju við öryggismálum í Nablus en Ísraelsher hefur þó haldið áfram að leita þar uppi eftirlýsta Palestínumenn.
Þrír ísraelskir hermenn og 21 Palestínumaður féllu í átökum og loftárásum Ísraela á Gasasvæðinu í gær. Fimm börn voru á meðal hinna látnu.