Til stendur að aðskilja mæður og börn sértrúarsafnaðarins Fundamentalist Church of Jesus Christ of Latter Day Saints (FLDS) í Texas í Bandaríkjunum en dómari úrskurðaði í gær að 416 börn sem tilheyra söfnuðinum skuli vera áfram í umsjá ríkisins. Til stendur að gera erfðaefsinspróf á öllum börnunum þar sem safnaðarmeðlimir hafa ekki viljað veita upplýsingar um það hverjir séu foreldrar þeirra. Þetta kemur fram á fréttavef CNN.
Mæður barna innan fjögurra ára aldurs hafa fram til þessa fengið að vera með börnum sínum en eftir helgina munu einungis mæður sem eru innan átján ára aldurs fá að vera með börnum sínum. Barnaverndaryfirvöld segja að þó verði reynt að halda systkinum saman.
Lögregla réðst inn á búgarð samtakanna Yearning For Zion þann 3. apríl eftir að stúlka hringdi þaðan í kvennaathvarf og sagði fimmtugan eiginmann sinn beita sig ofbeldi. Talið er að stúlkur allt niður í þrettán ára gamlar hafi verið neyddar í hjónabönd og beittar kynferðislegu ofbeldi innan safnaðarins.
Carolyn Jessop, sem skrifað hefur bók um líf sitt innan safnaðarins og flótta sinn þaðan, segir í grein sem birt er á fréttavef CNN að aðgerðir yfirvalda gegn söfnuðinum í Short Creek í Arizona árið 1953 hafi einungis styrkt hann. Þetta hafi ekki síst mátt rekja til þeirra hörðu viðbragða sem það vakti er myndir sem sýndu er börn voru aðskilin frá mæðrum sínum voru birtar í fjölmiðlum.