Níu finnskir ferðamenn, þar á meðal sjö ára gömul stúlka, létu lífið í rútuslysi á hraðbraut nálægt bænum Benalmádena á suðuströnd Spánar í kvöld. Þá slösuðust 36 manns, sumir lífshættulega, en rútan lenti í árekstri við annan bíl og valt. Flestir í rútunni voru finnskir ferðamenn á leið heim úr fríi og var ferðinni heitið á flugvöllinn í Malaga.
Slysið varð með þeim hætti, að stórum jeppa var ekið inn á brautina og inn í hlið rútunnar sem valt. Ökumaður jeppans var tekinn í áfengismælingu og handtekinn í kjölfarið. Að sögn fjölmiðla mældist áfengismagn í blóði bílstjórans um 0,5 prómill.
Rigning og rok voru á svæðinu og því voru akstursskilyrði slæm. Lögreglan hefur þó ekki upplýst hvort það sé talið vera orsakaþáttur í slysinu.
Bílbelti eru talin hafa bjargað mörgum í rútunni en sjónarvottar segja að fólk, sem ekki var með beltið spennt hafi kastast út um glugga þegar rútan valt.
Finnsk kona, sem ók framhjá slysstaðnum, segir við blaðið Ilta-Sanomat, að alger ringulreið hafi verið þar og margra kílómetra langar bílaraðir í báðar áttir.