Hillary Clinton og Barack Obama, sem berjast um að verða forsetaefni bandaríska Demókrataflokksins, hafa ráðist harkalega hvort að öðru í kosningaræðum sínum um helgina. Prófkjör flokksins fer fram í Pennsylvaniu á þriðjudag og er talið er að úrslit þess geti ráðið úrslitum um það hvort þeirra verður í framboði í haust. Þetta kemur fram á fréttavef BBC.
Clinton og Obama sökuðu hvort annað um það um helgina að heyja neikvæða kosningabaráttu en margir stuðningsmenn flokksins hafa lýst áhyggjum af því að harkaleg barátta þeirra sundri flokknum og dragi úr trúverðugleika hans.
Obama sagði m.a að Clinton tryði á það að segja og gera hvað sem væri til að koma hagsmunamálum í gegn í Washington. Að þannig telji hún að hlutirnir eigi og verði að vera. „Þið eigið því að kjósa hana af því að hún hefur verið lengur í Washington og kann því leikinn betur," sagði hann.
Clinton sagði hins vegar að Obama hafi gripið til niðurrifsaðgerða eftir að þau mættust í kappræðum í síðustu viku. „Það er ekki furða hvað andstæðingur minn hefur verið neikvæður undanfarna daga enda held ég að þið hafið þá séð þann mikla mun sem er á okkur," sagði hún og vísaði þar til kappræðnanna. „Þetta snýst um val á leiðtoga og ég býð ykkur leiðtoga sem þið getið treyst," sagði hún.
Fréttaskýrendur eru flestir sammála um að Clinton verði að sigra í prófkjörinu á þriðjudag til að geta haldið baráttu sinni áfram en þrátt fyrir sigur í Pennsylvaniu mun hún ekki vinna upp forskot Obama.
Samkvæmt síðustu talningu AP fréttastofunnar hefur Obama nú tryggt sér stuðning 1.638 kjörmanna á flokksþingi Demókrataflokksins sem fram fer í ágúst en Clinton hefur tryggt sér stuðning 1.502 kjörmanna.