Edna Parker, elsta núlifandi kona heims, á hundrað og fimmtán ára afmæli í dag. Læknar hafa engar skýringar á því hversu langlíf Parker er en fjölskylda hennar telur lífsviðhorf hennar eiga stóran þátt í því. „Hún hefur aldrei verið mikið fyrir að hafa áhyggjur,” segir Don Parker, 59 ára barnabarn hennar. „Þá hefur hún alltaf verið grönn. Kannski það skýri þetta á einhvern hátt.”
Parker er fædd í Indiana í Bandaríkjunum 20. apríl árið 1893. Hún hefur verið ekkja frá árinu 1938 og bjó ein uns hún náði hundrað ára aldri. Hún býr nú á heimili sonar síns.Parker varð elsta kona heims í ágúst á síðast ári er japönsk kona, sem var nokkrum mánuðum eldri en hún, lést. Vitað er um 75 núlifandi einstaklinga sem eru eldri en 110 ára, þar af 64 konur. Hún tekur nú þátt í í rannsókn á vegum háskólans í Boston sem hefur það að markmiði að greina erfðaefni mjög gamalla einstaklinga til að leita upplýsinga um það hvað veldur því að þeir hafa náð jafn háum aldri og raun ber vitni.