Sami Abu-Zuhri, talsmaður palestínsku Hamas samtakanna, hafnaði í dag tillögum Egypta að forsendum friðarviðræðna Ísraela og Palestínumanna, sem Ahmed Aboul Gheit, utanríkisráðherra Egyptalands kynnti á föstudag. Þetta kemur fram á fréttavef Ha’aretz.
Á meðal þess sem Egyptar leggja til er að hugsanlegt friðarsamkomulag Ísraels og Palestínumanna verði borið undir þjóðaratkvæðagreiðslu.
„Hamas samtökin hafna öllum hugmyndum um þjóðaratkvæðagreiðslu um undirritun friðarsamkomulags við hernámslið Ísraela,” segir Zuhri í viðtali við Al Jazeera sjónvarpsstöðina. „Það verður ekki kosið um grundvallarréttindi. Hvernig á að vera mögulegt fyrir okkur að ganga til atkvæðagreiðslu um í al-Quds [Jerúsalem] hafi slík atkvæðagreiðsla áhrif á réttindi okkar í al-Quds?"
Í tillögum er einnig gert ráð fyrir því að Palestínumenn skuldbindi sig til að hætta flugskeytaárásum á Ísrael og að Ísraelar skuldbindi sig til að hætta að geraárásir á herská Palestínumenn. Þá er gert ráð fyrir því að landamæri Gasasvæðisins verði opnuð og að Ísraelar sleppi 400 palestínskum föngum úr fangelsum í Ísrael í skiptum fyrir ísraelska hermanninn Gilad Shalit, sem verið hefur í haldi Hamas-samtakanna frá árinu 2006.