Yfirvöld í Kína hafa hvatt Kínverja til að taka mótmælaaðgerðum erlendra aðila í landinu með stillingu og sýna þjóðarstolt sitt a yfirvegaðan hátt. Vaxandi reiði gætir meðal almennings í Kína vegna framkomu mótmælenda sem reyndu að spilla hlaupi með Ólympíueldinn á Vesturlöndum. Þetta kemur fram á fréttavef BBC.
Hvatt er til stillingar í ritstjónargrein dagblaðs kommúnistaflokksins í dag en þar er þó einnig tekið undir það sjónarmið að Vesturlandabúar sem styðji sjálfstæðisbaráttu Tíbeta hafi með ósanngjörnum hætti gert Ólympíuleikana að vettvangi pólitískra deilna. Efnt hefur verið til mótmæla vegna málsins við verslanir frönsku verslunakeðjunnar Carrefour.
Samkvæmt heimildum kínversku fréttastofunnar Xinhua komu rúmlega 1.000 mann saman við verslun Carrefour í borginni Xian í morgun auk þess sem efnt var til mótmæla við verslanir hennar í Harbinand Jinan. Í gær mótmæltu hundruð manna framgangi Vesturlandabúa í borgunum Wuhan, Hefei, Kunming og Qingdao. Víða fóru mótmælin fram við verslanir Carrefour.