Páfi hylltur á Yankee Stadium

Tugir þúsunda eru nú við messu Benedikts páfi XVI á íþróttaleikvanginum Yankee Stadium í New York í Bandaríkjunum. Í ræðu sinni hvatti páfi Bandaríkjamenn m.a. til þess að nota frelsi sitt af skynsemi og góðvild og að hafa Guð með í ráðum í daglega lífinu. Þetta kemur fram á fréttavef Reuters.

Mikill fögnuður braust út er páfi ók inn á leikvanginn í smábifreið sinni en 57.000 manns eru við messuna sem er síðasti viðburðurinn í sex daga Bandaríkjaheimsókn páfa sem vakið hefur mikla athygli. 

Fyrr í dag heimsótti páfi Ground Zero þar sem Tvíburaturnarnir stóðu fram til 11. september árið 2001. Þá fjallaði hann í fyrsta skipti opinberlega um unglingsár sín í Hitlers-æskunni í dag. Sagði hann Nasistaskrímslið hafa rænt sig æskunni og að það væri Guðs gjöf hversu mörg ungmenni nú til dags fái að alast upp við frelsi, lýðræði og mannréttindi.

Sagist hann hafa verið neyddur til að ganga í Hitlers-æskuna og að hin illi öfl sem þá réðu Þýskalandi og töldu sig vita öll svörin hafi úthýst sannleikanum.  „Áhrif þeirra jukust, þeirra fór að verða vart í skólum og opinberum stofnunum ekki síður en í stjórnmálunum og jafnvel einnig í trúmálum, áður en fólk gerði sér almennilega grein fyrir því hverslags skrímsli um var að ræða,” sagði hann. „Það útilokaði Guð og þannig allt það sem er satt og gott.” Páfi gekk í þýska herinn undir lok síðari heimsstyrjaldarinnar en gerðist liðhlaupi og var um tíma stríðsfangi Bandamanna.
Benedikt páfi XVI á Yankee Stadium í New York í …
Benedikt páfi XVI á Yankee Stadium í New York í kvöld. AP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert