Finnsk stjórnvöld eru að senda hóp sérfræðinga til Spánar, þar á meðal lækna, sálfræðinga og lögreglumenn, vegna rútuslyssins sem varð á suðurhluta Spánar í gærkvöldi þar sem 9 finnskir ferðamenn létu lífið og 40 slösuðust. Rútan lenti í árekstri við jeppa og reyndist ökumaður jeppans vera drukkinn.
Þeir sem fórust voru sex konur og tveir karlmenn og sjö ára gömul stúlka. Finnsku ferðamennirnir voru á leið frá bænum Marbella á Costa del Sol til flugvallarins í Malaga en þaðan ætluðu þeir að fljúga til Finnlands í gærkvöldi. Á leiðinni á flugvöllinn reyndi ökumaður jeppa að fara framúr rútunni. Hann lenti hins vegar á vegriði milli akreina og kastaðist á rútuna sem valt út af veginum.
Ökumaður jeppans slapp ómeiddur en rannsókn leiddi í ljós að áfengismagn í blóði hans var 0,5 prómill. Samkvæmt spænskum lögum má magnið að hámarki vera 0,25 prómill.
Finnska sendiráðið í Madrid segir, að verið sé að bera kennsl á þá sem létust en þeir köstuðust flestir út um glugga rútunnar þegar hún valt. Alexander Stubb, utanríkisráðherra Finnlands, sagði á blaðamannafundi í dag að verið væri að senda hóp sérfræðinga til Spánar vegna málsins.
Stubb og Matti Vanhanen, forsætisráðherra, sendu aðstandendum þeim sem létust samúðarkveðjur ríkisstjórnarinnar. Miguel Angel Moratinos, utanríkisráðherra Spánar og Manuel Chaves, ríkisstjóri í Andalúsíu, vottuðu Finnum einnig samúð og hétu aðstoð.
Gert er ráð fyrir því, að flestir þeirra sem lifðu slysið af fari með sérstakri flugvél til Finnlands í kvöld.