Mannréttindasamtökin Human Rights Watch segja að lög um að karlar í Sádi Arabíu hafi forræði yfir konum í fjölskyldum sínum geri það að verkum að konur í landinu fái ekki tækifæri til að fullorðnast. Fram kemur í nýrri skýrslu samtakanna að mannréttindi kvenna í landinu séu fótum troðin til þess að tryggja yfirráð karla yfir konum. Þetta kemur fram á fréttavef BBC.
„Konur í Sádi-Arabíu fá ekki tækifæri til að þroskast fyrr en yfirvöld binda enda á misnotkunina sem rekja má til þessarar röngu stefnu,” segir Farida Deif, sérfræðingur samtakanna í málefnum Mið-Austurlanda. “Það er ótrúlegt að yfirvöld í Sádi-Arabíu skuli neita fullorðnum konum um réttinn til að taka ákvarðanir um eigið líf en á sama tíma skuli þær verða sakhæfar við kynþroskaaldur. Konur í Sádi-Arabíu fá hvorki nokkur réttindi, né nokkrar skyldur þegar þær verða fullorðnar.”
Sádi Arabía er eins ríki heims þar sem konum er bannað að aka bíl. Þá þurfa konur í Sádi-Arabíu leyfi karlkyns ættingja sinna til að vinna, ferðast, stunda nám, giftast og jafnvel til að sækja heilbrigðisþjónustu hins opinbera. Einnig eru gerðar kröfur um samþykki karlkyns ættingja þeirra leiti konur réttar síns eftir lagalegum leiðum.
Einnig kemur fram í skýrslunni að konur geti ekki skráð börn sín í skóla í sádi-Arabíu eða fengið aðgang að upplýsingum skóla um þau. Þá geti þær ekki opnað fyrir þau bankareikninga eða ferðast með þau án skriflegs leyfis feðra barnanna.
Skýrslan heitir „Perpetual Minors: Human Rights Abuses Stemming from Male Guardianship and Sex Segregation in Saudi Arabia” og byggir á viðtölum við rúmlega hundrað konur í landinu.