Starfsmenn á flugvelli Madrid handteknir fyrir eiturlyfjasmygl

Fjórir starfsmenn Barajas flugvallarins í Madrid á Spáni hafa verið handteknir grunaðir um að eiga þátt í eiturlyfjasmygli.  Að sögn lögreglu voru fimm aðrir einnig handteknir, sem grunaðir eru um að hafa sótt eiturlyfin þegar þau komu til landsins.  Handtökurnar voru gerðar í kjölfar þess að 17 kíló af kókaíni voru gerð upptæk.  Þeir handteknu eru frá Kólumbíu, Spáni, Argentínu, og Ekvador.

Að sögn lögreglu, fór smyglið þannig fram að þeir sem bjuggu erlendis komu eiturlyfjum fyrir í ómerktum ferðatöskum sem voru sendar með flugvélum á leið til Spánar.  Tengiliðir þeirra í Madrid sendu svo töskurnar í deild með töpuðum farangri, þar sem einn af þeim handteknu starfaði.  Sá aðili gekk svo frá því að eiturlyfin væru flutt af flugvellinum. 

Kólumbía er stærsti framleiðandi kókaíns í heiminum og mesta magnið af efninu, sem kemur til Evrópu frá Suður Ameríku, er smyglað í gegnum Spán.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert