Tveir leiðtogar Suður-Ameríku ríkja hafa varað við áhrifum sem framleiðsla á lífrænu eldneyti hefur á matarforða heims, og segja að eftirspurn eftir lífrænu eldsneyti ógni framleiðslu á undirstöðufæðu og geti leitt til hungursneyðar á meðal fátækari þjóða.
Á fréttavef BBC kemur fram að á fundi Sameinuðu þjóðanna í New York, um áhrif hnattrænnar hlýnunar á innfædda, sagði Evo Morales, forseti Bólivíu, að þróun lífræns eldneytis hafi skaðleg áhrif á fólk sem hefði lítið milli handanna. Alan Garcia, forseti Perú, sagði að framleiðsla lífræns eldsneytis stefndi framleiðslu á mat í hættu og tæki land frá ræktun matvæla.
Umhverfissinnar segja að endurnýjanlegt lífrænt eldsneyti sé valkostur sem geti hjálpað við að koma í veg fyrir hlýnun jarðar. Í ljósi þess að matarverð hefur hækkað gríðarlega um allan heim er óttast að framleiðsla á lífrænu eldsneyti ýti upp verði á matvælum og dragi úr framleiðslu þeirra.
Evrópusambandið hefur verið gagnrýnt fyrir áætlun sína að lífrænt eldsneyti verði notað á 10% ökutækja fyrir árið 2020.