Hillary Clinton, öldungadeildarþingmaður New York, sigraði keppinaut sinn Barack Obama, öldungadeildarþingmann Illinois, í forkosningum demókrata í Pennsylvaníu í gær. Clinton fékk 55% atkvæða og Obama 45%.
Kosið var um 158 kjörmenn í Pennsylvaníu og samkvæmt fréttavef Reuters hafði Clinton tryggt sér 75 kjörmenn og Obama 65 í Pennsylvaníu. Obama hefur tryggt sér alls 1720 kjörmenn og Clinton 1588. Frambjóðandi þarf 2025 kjörmenn til að tryggja sér útnefningu á flokksþingi Demókrataflokksins í júní.
Stjórnmálaskýrendur segja að Clinton hafi þurft á sigrinum að halda til þess að eiga möguleika á að verða útnefnd forsetaefni demókrata. Þeir efast hins vegar um að sigurinn hafi verið nógu afgerandi til að hleypa nýju lífi í framboð Clinton.