Clinton spáð sigri

Hillary Clinton.
Hillary Clinton. Reuters

Fyrstu tölur úr talningu atkvæða í forkosningum Demókrataflokksins í Pennsylvaníu í dag benda til þess að Hillary Clinton hafi borið sigurorð af Barack Obama. Útgönguspár sjónvarpsstöðva bentu til þess að mjótt yrði á mununum í ríkinu en Fox sjónvarpsstöðin spáir því að Clinton hafi sigrað.

Ef marka má útgönguspár virðist Obama njóta yfirburðafylgis meðal ungs fólks og 92% blökkumanna, sem tóku þátt í forkosningunum í dag kusu hann. Clinton nýtur meira fylgis meðal kvenna, aldraðra, hvítra karlmanna, verkafólks og fólks af suður-amerískum uppruna.

Mikil kjörsókn virðist hafa verið í forkosningunum. Sérfræðingar segja að Clinton þurfi á góðum sigri að halda til að eiga möguleika á að verða útnefnd forsetaefni demókrata.

Demókratar í Pennsylvaníu kjósa um 158 kjörmenn á flokksþingi demókrata í sumar. Obama hefur þegar tryggt sér 1648 kjörmenn en Clinton 1537 en 2025 kjörmenn þarf á flokksþinginu til að hljóta útnefningu.  

Barack Obama.
Barack Obama. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert