„Við eigum okkur langa samskiptasögu, Palestínumenn og Ísraelar,“ segir Saeb Erekat einn af þekktustu leiðtogum Palestínumanna síðustu árin . „Og þetta er ekki einfalt mál að leysa, þetta er flóknara en landamæraþrætur milli Ekvador og Perú, erfiðara viðfangs en landhelgisdeilurnar ykkar á sínum tíma. Gyðingar í borginni minni hafa farið í samkunduhús í 5.700 ár, kristnir í kirkju í bráðum 2.000 ár og múslímar í mosku í meira en 1.350 ár. Þeir fara alltaf með sömu bænirnar og ekki má hnika einu orði, aldrei yrði hægt að semja um það.
Þetta er deila sem snýst um svo margt. Um landamæri, um Jerúsalem, trú, öryggi, sálarástand. Fyrir 15 árum gátum við samningamennirnir ekki sætt okkur við að sjá hver annan, við urðum að hafa vegg á milli í sjónvarpsviðtölum! Og við viðurkenndum ekki tilvistarrétt hver annars.
Erfiðasti tími meðgöngunnar er sjálf fæðingin, þá er sársaukinn mestur. Ég held að Palestínumenn og Ísraelar séu að ganga í gegnum það skeið í friðarferlinu núna. Þetta er tími umskipta, þetta eru hvörf í sálfræðilegum skilningi, líka landfræðilegum og hvað varðar tilifinningu fyrir öryggi. Þetta er ekki auðveldur tími, alls ekki," segir hann.
„En við eigum að halda áfram á þessari braut. Ég hef sagt: Ég vinn að friði af því að ég vil ekki að sonur minn verði sjálfsmorðssprengjumaður.“