Ki-moon hvetur til herferðar gegn malaríu

Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna hefur hafið herferð gegn malaríu í tilefni af því að fyrsti alþjóðlegi malaríudagurinn er í dag.

Milljónir manna deyja af völdum sjúkdómsins á ári hverju, og eiga 90% dauðsfalla sér stað í Afríku.  Í yfirlýsingu frá Ki-moon kallar hann eftir því að fyrir árið 2010 hafi allir Afríkubúar aðgang að grundvallaraðbúnaði til þess að koma í veg fyrir sjúkdóminn.  Þá vill Ban að allir sem eru í hættu, sérstaklega konur og börn, hafi betri aðgang að moskítónetum og skordýraeitri.

Fram kemur á fréttavef BBC að hálfur milljarður manna smitist af malaríu á ári hverju og að barn deyi af völdum sjúkdómsins á 30 sekúndna fresti.  Þrátt fyrir það sé hægt að koma í veg fyrir sjúkdóminn og lækna hann.

Þá kemur fram í frétt BBC að tilraunir til þess að hafa hemil á sjúkdómnum hafi ekki borið nógu góðan árangur og að dauðsföll vegna malaríu hafi aukist.

Barn frá Sambíu situr undir moskítóneti.
Barn frá Sambíu situr undir moskítóneti. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert