Kínverskir embættismenn munu eiga fund með fulltrúa Dalai Lama, andlegs leiðtoga Tíbet, í fyrsta sinn eftir að átök brutust út í Lhasa, höfuðborg Tíbets í síðasta mánuði. Frá þessu greinir kínverska ríkisfréttastofan Xinhua og segir að fundur verði haldinn á næstu dögum.
Fram kemur á fréttavef BBC að vitnað er í ónafngreindan embættismann, sem segir að kínversk stjórnvöld hafi ákveðið að taka til greina óskir Dalai Lama um að hefja viðræður. Kínversk stjórnvöld hafa ásakað Dalai Lama og fylgismenn hans um að ýta undir óeirðir og mótmæli á svæðum þar sem Tíbetar búa í Kína. Dalai Lama hefur vísað ásökunum á bug og segist ekki gegna pólitísku hlutverki né hafa ýtt undir mótmælaaðgerðir.
Mótmæli tíbetskra munka gegn kínverskum stjórnvöldum hófust í Lhasa þann 10. mars og breiddust út til fleiri landssvæða í Tíbet og nærliggjandi héruðum í Kína.