Læknar í Danmörku hafa varað við því að miklar líkur séu á því að verkfall hjúkrunar og umönnunarfólks í landinu muni kosta mannslíf þrátt fyrir að veittar hafi verið fjölmargar undanþágur frá verkfallinu og fjöldi deilda innan stéttarsamtaka þessara stétta hafi hætt þátttöku í verkfallinu vegna þeirra. Þetta kemur fram á fréttavef Berlingske Tidende.
„Átökin leiða til verri umönnunar sjúklinga. Þetta á sérstaklega við um þá sem ekki hafa jafn augljósa þörf fyrir umönnun og aðrir. Haldi átökin áfram þá mun það leiða til ónauðsynlegra þjáninga, ónauðsynlegra blóðtappa og að lokum dauðfalla sem hægt hefði verið að afstýra, segir Henrik Sillesen, formaður dönsku hjartaverndarsamtakanna sem einnig er yfirlæknir hjartaskurðdeildar á danska Ríkisspítalanum.
Sillesen segir danska lækna nú hafa þurft að aflýsa 67.000 viðtalstímum en að þeir reyni að sinna sem flestum í gegn um síma. „Það getur aldrei komið í sama stað niður. Jafnvel þótt allir séu af vilja gerðir þá er það bara spurning um tíma þar til einhverjum sést yfir þörf sjúklings sem þarf á bráðameðferð að halda, með alvarlegum afleiðingum,” segir hann.
„Hér á Ríkisspítalanum erum við þegar farnir að fá símtöl frá hjartasjúklingum, sem hafa verið færðir aftar á lista, og hefur versnað.Morten Lebech, formaður félags danskra fæðingar og kvensjúkdómalækna og yfirmaður fæðingardeildar sjúkrahússins í Herlev, tekur í sama streng og segir mikla hættu á að áhættumeðgöngur fari framhjá læknum á meðan þjónustu ljósmæðra. “Það er ekki hægt að skoða alla maga á fullnægjandi hátt og því er ekki útilokað að konur missi fóstur,” segir hann.
Jakob Axel Nielsen, heilbrigðisráðherra Danmerkur segist hins vegar hafa fulla trú því að læknar geti greint milli neyðartilfell og tilfella sem þoli bið. „Það er hlutverk lækna að greina hvaða sjúklingar þurfa meðferð án tafar og hverjir geta beðið,” segir hann.
23.000 hjúkrunarfræðingar, geislafræðingar, ljósmæður, meinatæknar, iðjuþjálfar, næringarfræðingar , lyfjatæknar og aðrir sérhæfðir starfsmenn í heilbrigðisgeiranum eru nú í verkfalli í Danmörku og 47.000 til viðbótar munu bætast í hóp þeirra þann 28. apríl.