Stjórnvöld í Kína tilkynntu í gær, að teknar yrðu upp aftur viðræður við fulltrúa Dalai Lama, hins útlæga leiðtoga Tíbeta. Kom yfirlýsingin mjög á óvart en hefur verið fagnað víða um lönd
Engar viðræður hafa verið milli Kínverja og fulltrúa Dalai Lama í eitt ár og búist var við, að mótmælin í Tíbet gegn yfirráðum Kínverja og raunar á alþjóðavettvangi líka yrðu ekki til, að þær yrðu teknar upp í bráð.
Talsmaður Evrópusambandsins fagnaði sinnaskiptum Kínverja í gær og Nicolas Sarkozy, forseti Frakklands, sagði þau stórt skref í rétta átt. Sömu sögu er að segja af viðbrögðum stjórnvalda í Þýskalandi og Japan og Gordon Johndroe, talsmaður Bandaríkjastjórnar, sagði, að George W. Bush forseti hefði hvatt starfsbróður sinn kínverskan, Hu Jintao, til að taka viðræðurnar upp aftur.
Kínverska stjórnin hefur sætt harðri gagnrýni vegna framgöngu her- og lögreglumanna við að berja mótmælin í Tíbet niður. Talið er, að hundruð manna hafa verið fangelsuð og útlægir Tíbetar segja, að 150 manns að minnsta kosti hafi verið drepin. Vegna þessa hefur hlaupið með Ólympíukyndilinn um borgir víða um veröld verið hið mesta vandræðamál fyrir Kínverja og skorað hefur verið á ráðamenn í mörgum ríkjum að hundsa setningarathöfn Ólympíuleikanna í Peking 8. ágúst.
Dalai Lama, sem er 72 ára að aldri, hefur búið í bænum Dharamshala á Indlandi síðan 1959. Flúði hann þá frá Tíbet eftir að Kínverjar höfðu bælt niður uppreisn landsmanna.