Segist ekki hafa beitt valdi

Josef Fritzl.
Josef Fritzl. AP

Hinn 73 ára Josef Fritzl sem hefur játað að hafa byggt neðanjarðarbyrgi og haldið dóttur sinni og þremur börnum hennar þar í 24 ár heldur því fram að hann hafi aldrei beitt hana valdi eða nauðgað.

Talsmaður saksóknara hafði þessi orð eftir Fritzl sem mun hafa viðurkennt sifjaspell en tók fram að hann hafi aldrei beitt dóttur sína valdi til að koma vilja sínum fram við hana.

Seinni hluta dags í dag verður Fritzl færður fyrir rannsóknardómara en framundan eru margra daga yfirheyrslur í tengslum við þetta hrottalega mál.

Þröngt jarðhýsi

Fjórtán lögreglumenn hafa farið mjög nákvæmlega yfir neðanjarðarbyrgið í fjölskylduhúsinu í Amstetten í austurhluta Austurríkis þar sem Elísabeth og börnum hennar var haldið föngnum. Lofthæð þar er ekki nema 1,70 metrar.

Börnin mun hún hafa alið í dýflissunni og þrjú þeirra munu aldrei hafa séð dagsbirtu. Alls mun Elísabeth hafa eignast sjö börn með föður sínum en eitt þeirra dó skömmu eftir fæðinguna. Þau sem lifa eru þrír drengir og þrjár stúlkur á aldrinum fimm til tuttugu ára.

Málið komst í hámæli þegar eitt barnanna nú 19 ára var lögð inn á sjúkrahús og læknar fóru að grafast fyrir um móður hennar og þegar Fritzl lét þá tala við Elisabeth kom öll þessi hryllilega saga í ljós.

Barnið sem dó var annar tvíbura sem fæddust í dýflissunni.

Ættleiddi þrjú börn 

Þrjú barnanna, tvo drengi og eina stúlku ættleiddu Fritzl og kona hans Rosemarie en hann sagði henni og yfirvöldum að Elisabeth hefði skilið þau eftir á tröppunum eftir því sem þau fæddust.

Í hvert sinn fylgdi bréf með börnunum sem átti að hafa verið undirritað af Elisabeth þar sem hún sagðist ekki geta framfært börnunum þar sem hún ætti núþegar önnur börn.

Elisabeth Fritzl sagði lögreglunni að móðir hennar hafi aldrei vitað af hinu kynferðislega ofbeldi sem hún sætti frá 11 ára aldri eða um sjö árum áður en faðir hennar læsti hana inni.

Ættleiddu börnin gengu í skóla og lifðu eðlilegu lífi að því er virðist án hugmyndar um að móðir þeirra og þrjú systkini væri haldið föngnum undir húsinu.


Úr jarðhýsinu.
Úr jarðhýsinu. AP
Afar lágt er til lofts í jarðhýsinu þar sem konunni …
Afar lágt er til lofts í jarðhýsinu þar sem konunni og börnum hennar var haldið föngnum. AP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka