Heilbrigðis- og landbúnaðarráðuneyti Ítalíu ákváðu í dag að heimila útflutning á mozzarella osti unnum úr mjólk buffalóa á ný. Bann var lagt við útflutningnum í síðasta mánuði þar sem talið var að of mikið magn af díoxíni væri í ostinum. Samkvæmt þessu er útflutningur á ostinum óhindraður frá Ítalíu en frá því bann var lagt við frjálsum útflutningi í síðasta mánuði hefur ostur sem fluttur hefur verið út verið rannsakaður.
Hafa stjórnvöld á Ítalíu látið taka sýni í hundruðum mozzarella verksmiðjum á Ítalíu eftir að í ljós kom að of mikið af eiturefninu reyndist vera í ostinum. Evrópusambandið, Kína og Singapúr lögðu í kjölfarið bann við sölu á ítölskum mozzarella osti unnum úr buffalómjólk.