Olmert vísar allri ábyrgð á Hamas

Eitt fjögurra barna Abu Meatak fjölskyldunnar borið til grafar, umvafið …
Eitt fjögurra barna Abu Meatak fjölskyldunnar borið til grafar, umvafið litum Hamas samtakanna, í Beit Lahiya á norðanverðu Gasasvæðinu í gær. AP

Ehud Olmert, forsætisráðherra Ísraels, lýsti í morgun yfir hryggð sinni vegna dauða móður og fjögurra ungra barna hennar er hernaðaraðgerðir Ísraelshers stóðu yfir á Gasasvæðinu í gær. Hann sagði ábyrgðina þó alfarið liggja hjá Hamas-samtökunum sem stofni óbreyttum borgurum í hættu með hernaðarumsvifum sínum á meðal óbreyttra borgara og geri þá þannig að þátttakendum í átökum. Þetta kemur fram á fréttavef Ha’aretz. 

„Sorg okkar er sönn og mun raunverulegri en uppgerðarsorg hryðjuverkasamtakanna sem stofna sínu eigin fólki í slíka hættu,” sagði Olmert og bætti því við að undanfarna dagi hafi flugskeytum frá Gasasvæðinu rignt yfir Negev svæðið í Ísrael.

„Það er kraftaverk að ísraelskir borgarar hafi ekki látið lífið eða slasast í Sderot," sagði Olmert en flugskeyti hafnaði m.a. á yfirgefnu íbúðarhúsi í borginni í morgun. „Þessi hryðjuverkasamtök vinna látlaust gegn ísraelsku þjóðinni og barátta Ísraelshers gegn þeim er óumflýjanleg viljum við vernda Ísraelska borgara. Á mánudag, þegar hermenn okkar, reyndu að vernda ísraelska borgara, létu móðir og fjögur börn hennar lífið. Þetta sorglega atvik hryggir Ísraela mjög. Nákvæmar upplýsingar um aðstæður liggja ekki fyrir en Ísraelsher mun rannsaka atvikið og birta niðurstöðurnar,” sagði hann. 

Ísraelsher segir að fólkið hafi látið lífið er tvö flugskeyti hersins kveiktu í sprengiefni í eigu herskárra liðsmanna Hamas-samtakanna. Talsmenn Hamas-samtakanna segja hins vegar að fólkið hafi látið lífið er skotið var á heimili þess úr skriðdreka Ísraelshers.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert