Svissneski efnafræðingurinn Albert Hofman, sem uppgötvaði ofskynjunarlyfið LSD, lést í gær af völdum hjartaáfalls á heimili sínu í Sviss, 102 ára að aldri.
Fram kemur á fréttavef BBC að Hofman framleiddi LSD fyrst árið 1938 þegar hann var að rannsaka læknandi áhrif sveppa. Hofman uppgötvaði virkni efnisins fyrir tilviljun nokkrum árum síðar, þegar hann innbyrti óvart lyfið af fingurgómum sínum eftir að hafa verið að vinna með það á rannsóknarstofu lyfjafyrirtækis. Hofman lýsti því síðar að hann hafi fengið ofskynjanir og séð ýmis form í sterkum litum. Hofman vonaðist til þess að hægt væri að nota LSD til þess að lækna geðsjúkdóma.
Lyfið varð vinsælt meðal hippakynslóðarinnar á sjöunda áratugnum en hryllingssögur komu í kjölfarið þegar í ljós kom að margir notendur lyfsins þjáðust af varandi geðröskunum. LSD var bannað í mörgum löndum seint á sjöunda áratugnum.