Talsmaður NATO sagði í dag, að ýmsar aðgerðir og yfirlýsingar Rússa að undanförnu varðandi Georgíu væru til þess fallnar að grafa undan fullveldi Georgíumanna og ykju á spennu.
Varnarmálaráðherra Rússlands tilkynnti í gær, að fjölgað yrði í friðargæsluliði Rússa í Suður-Ossetíu, sjálfstjórnarhéraði í Georgíu, sem hefur sagt sig úr lögum við landið. Sagði ráðherrann, að þessi ákvörðun hefði verið tekin til að bregðast við yfirgangi Georgíu.
„Þessi yfirlýsing varð ekki til þess að draga úr spennunni," sagði talsmaður NATO.